Fylgja minningarsíðu
Einar Sigurðsson
Fylgja minningarsíðu
18. janúar 1927 - 3. ágúst 2010
Útför
Útför hefur farið fram.
Kveðja frá Nikký
Í dag kveð ég föður minn elskulegan í hinsta sinn.Hann var einstakur maður, fróður, minnugur og fullur af lífsvilja til hins síðasta. Af áhuga fylgdist hann með gangi heimsmála og þjóðmála og því sem var að gerast í fjölskyldunni. Hann las mikið, horfði á íslenskar og erlendar sjónvarpsstöðvar og notaði veraldarvefinn til að viða að sér fróðleik og fylgjast sem best með og víkka sjóndeildarhringinn. Á þennan hátt gat pabbi „setið kyrr á sama stað og samt verið að ferðast.“Pabbi var sá sem ég leitaði til ef mig vantaði svör við einhverju og fram á síðasta dag gat ég sótt fróðleik til hans. Viðkvæðið hefur alltaf verið: „Ég spyr bara pabba, pabbi veit þetta“ Hann pabbi var mikilvæg persóna í mínu lífi og ekki síður í lífi Andreasar, sonar míns, sem var mikill afastrákur og hafa þeir átt margar góðar og ógleymanlegar stundir saman.Pabbi var víðförull og víðsýnn. Hann ferðaðist vítt og breitt um heiminn á vegum vinnu sinnar og oftar en ekki var mamma með honum í för. Þau dvöldu langtímum saman erlendis en alltaf bar pabbi landið sitt í hjarta sér og þegar kom að því að taka ákvörðun um hvar dvelja ætti síðustu æviárin var sjálfgefið að enda ferðalagið þar sem það byrjaði – heima á Íslandi.Þegar ég horfi á eftir pabba er mér efst í huga þakklæti.Ég ætla að fagna lífshlaupi hans og gleðjast yfir samfylgdinni.Hvíl í friði, elsku pabbi minn. Takk fyrir allt.
Bæta við leslista