no image

Fylgja minningarsíðu

Böðvar Guðmundsson

Fylgja minningarsíðu

22. febrúar 1932 - 8. október 2025

Andlátstilkynning

Ástkær faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi lést á heimili sínu 8.október.

Útför

15. október 2025 - kl. 13:00

Jarðarförin verður í Fossvogskapellu

Aðstandendur

Jakob Már Böðvarsson Gísli Ölvir Böðvarsson og Þóra Ingibjargardóttir Hlíf Böðvarssdóttir og Kristmann Rúnar Larsson Börn, barnabörn og barnabarnabörn

Kveðja frá dóttur

Þú ert farinn elsku pabbi. Ég finn að ég fæ næstum því samviskubit yfir þeirri sorg sem býr í brjósti mér þessa dagana. Rökin fyrir samviskubitinu eru að þú náðir 93 árum, sem verður að teljast mjög hár aldur og ég ætti bara að vera þakklát fyrir þau ár sem ég átti með þér. Einnig að þetta hafi verið það besta í stöðunni, enda varstu farinn að verða eitthvað slappur undir það síðasta og orðinn saddur lífdaga. Þetta er allt satt og rétt. En það er þannig með systurnar gleði og sorg, þær líta tímann ólíkum augum. Þegar gleðin bjó í okkar húsi þá varst þú 93 og ég 48 ára, við fórum í bíltúra og heimsóttum Ölla og Þóru upp í sumarbústað. Við ræddum um lífið, börnin mín og æsku þína í Reykjaskóla, sem hljómaði eins og ævintýri, um leið og við fengum okkur Pefsí eins og þú kallaðir það alltaf og pylsu með öllu. Síðustu tvö árin náðum við að tala enn meira saman og síðasti bíltúrinn okkar til Grindavíkur verður ávallt í hjarta mér. Svo knúði hin systirin á dyrnar og ég er ekki lengur 48 ára. Ég er 12 ára að reyta arfa í kartöflugarðinum ykkar Kristins, í sundi á sunnudagsmorgni þar sem svo var farið í bíltúr og skoðaðir bílar. Ég er með ykkur mömmu í sumarbústaðnum að vonast til að vindmyllan hafi búið til nægt rafmagn svo hægt væri að horfa á Spaugstofuna. Þú ert að hjálpa mér að kaupa fyrsta bílinn minn, fyrstu íbúðina mína, leiða mig niður kirkjugólfið, halda á nafna þínum, kveðja ömmu, kveðja mömmu og kveðja Guðmund bróðir.  Sorgin fer með þig í ferðalag í gegnum lífið og ég er ekki komin aftur að tímanum þar sem þú ert 93 ára og tilbúinn í ferðalag til Sumarlandsins. Því ætla ég að leyfa mér að vera leið, ég er bara lítil stelpa sem var að missa pabba sinn. „Ég bið þig um að fyrirgefa mér, ég fyrirgef þér, ég þakka þér fyrir allt og ég elska þig.“ Bænin sem lýsir svo vel sambandi foreldra og barna. Það er flókið og ávallt fullt af spennu, sjálfstæðisbaráttu, gleði, hlátri, sorg, ósögðum orðum og orðum sem aldrei átti að segja. En ef maður er heppinn, þá nær gleðin og kærleikurinn yfirhöndinni og ég var heppin. Var lífið dans á rósum, nei svo sannarlega ekki en einhvern veginn náðum við að veðra alla þessa storma saman. Nú kveð ég þig með sorg í hjarta, þakklæti í huga og Pefsí í flösku.  Hafðu þökk fyrir allt og allt elsku pabbi. 

no image

Bæta við leslista

Frá Gísla "Ölla" og fjölskyldu

„Hvar ert þú?“ er eitthvað sem ég þarf að venjast að heyra ekki þegar pabbi hringdi, alltaf það sama, „Hvar ert þú?“ Ástæðan einföld því þegar pabbi hringdi þá reyndi ég alltaf að svara og eitt sinn var ég á fundi þegar hann hringdi og þegar pabbi áttaði sig á því var hann ekki lengi að losa sig úr símanum og spurði síðan alla tíð „Hvar ert þú?“. Ekki mátti trufla og ekki mátti hafa fyrir honum. Þessi yndislegi maður hefur gert mér það erfitt fyrir að vera föðurbetrungur því hann setti markið hátt. Vissulega háði hann sína hildi í lífinu og átti oft erfitt en það góða flýtur alltaf upp og situr eftir og minningin um pabba verður alltaf góð og hlý. Það var erfitt og sárt að sjá pabba horfa á eftir mömmu, eiginkonu sinni og lífsförunauti en hann hafði í gegnum veikindi mömmu staðið eins og klettur við hlið hennar og sinnt henni af alúð allt til dauðadags hennar þann 6. September 2011. Fyrr á þessu ári sá hann svo á eftir frumburði sínum Guðmundi bróður sem lést þann 1. Mars sl. á 67 ára afmælisdegi sínum. Maður fann og skynjaði að þar urðu vatnaskil, maður getur bara misst svo mikið. Sjálfstæði var pabba mikilvægt og það að búa einn og geta keyrt um allt sjálfur var stór hluti af hans daglega lífi. Hann gerði sér ferðir í Svínadalinn til okkar Þóru í bústaðinn ýmist einn eða með Hlíf systir eða Hlífari frænda og kom svo oft klyfjaður trjám að við Þóra grínuðumst með að við hefðum varla undan að gróðursetja allt það sem hann kom með. Að reyna að fá hann til þess að hætta að eyða í okkur peningum í  trjám og runnum? Gleymdu því, þetta var hans leið til þess að taka þátt í uppbyggingu okkar Þóru á sumarbústaðnum okkar. Þess má geta að mikið af þeim trjám sem pabbi kom með voru sett niður í Böðvarslundi og munum við Þóra halda því starfi áfram í minningu pabba. Við Þóra vonuðumst alltaf til þess að hann næði að gista í gestahúsinu sem við ætlum okkur að reisa vonandi strax næsta sumar en það var sko planið en því miður náðist það ekki. Pabbi fékk langt og gott líf og skilur eftir sig stóran hóp af góðu fólki sem nú kveður góðan mann. Við syrgjum vissulega núna en munum svo fagna lífi hans og brosa yfir góðum minningum. Kannski er ekki hægt að biðja um mikið meira en það. Farðu í friði elsku pabbi minn, knúsaðu mömmu og Guðmund og alla hina sem á undan eru farnir og sjáumst síðar.

Bæta við leslista

Kveðja frá tengdasyni

Jæja Böðvar, þá ertu farinn, alltof snemma en þó orðinn 93 ára. Það fór kannski ekki vel með þig að þurfa að kveðja son þinn í vetur, það var sýnilega erfitt manni sem elskaði börnin sín.

Bæta við leslista