no image

Fylgja minningarsíðu

Birgir Scheving

Fylgja minningarsíðu

2. september 1941 - 2. júlí 2023

Andlátstilkynning

Birgir Scheving var fæddur í Reykjavík 2.september 1941. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 2.júlí 2023 í faðmi fjölskyldunnar.

Útför

Útför fór fram í kyrrþey.

Aðstandendur

Guðbjörg Karólína Hákonardóttir, Sigurborg Birgisdóttir og Hans H Hansen, Þórarinn Scheving, Hákon Einar Birgisson, barnabörn og barnabarnabörn

Þakkir

Innilegustu þakkir sendir fjölskylda Birgis einstöku starfsfólki Sóltúns, Árna Larsson æskuvini fyrir yndislega vináttu, Dödu og Nonna fyrir allar heimsóknirnar og kærleikinn.

Minningarorð um pabba

Pabbi var alltaf kletturinn sem stóð með okkur í blíðu og stríðu. Hann hafði einstaklega góða nærveru og var góður pabbi.  Minningarnar verða ekki teknar frá okkur og þegar við skoðum gamlar myndir rifjast upp alls kyns minningar af skemmtilegum útilegum, Ítalíuferðinni, öllum ferðunum upp í sumó og bíóferðunum á Chaplin. Pabbi hafði mikla ánægju af starfinu sínu og sinnti því alltaf vel. Hann var vinsæll smiður og vel liðinn af þeim sem unnu með honum. Í hans huga voru allir jafnir. Hann sagði oft að sér liði best í vinnugallanum og var alltaf tilbúinn að aðstoða okkur þegar við stóðum í framkvæmdum.Þegar mamma benti honum á að það væri nú í lagi að kaupa sér föt sagði hann að það væri nóg til að fataleppum. Honum þótti gaman að fá hjörðina sína í grill í Þingásinn og þá stóð hann við grillið.  Þar áttu þau mamma mjög fallegan garð þar sem þau plöntuðu alls kyns plöntum, voru með rennandi læk og nutu þess að gera fallegt í kringum sig. Hann var stoltur afi og hafði gaman af því að hafa gríslingana sína hjá sér. Þegar langafastrákarnir komu einn af öðrum var mikil gleði hjá honum. Pabbi og mamma höfðu gaman af ferðalögum og sem betur fer voru þau búin að ferðast út um allan heim áður en pabbi veiktist. Þegar þau voru erlendis var pabbi til í að fá sér að borða á veitingastöðum en þegar hann var á Íslandi sagði hann að það væri hægt að borða heima hjá sér. Hann var þó alltaf til í að koma í mat til okkar eða í fjölskylduboð. Árið 2009 var pabbi tæplega 68 ára þegar hann fékk heilablóðfall. Hann missti málið og lamaðist hægra megin. Við tóku miklar æfingar á Grensás og reyndist starfsfólkið þar honum mjög vel. Hann náði að ganga en málið fékk hann ekki. Gat sagt já og nei. Við fjölskyldan þurftum að læra að skilja pabba og tókst það ótrúlega vel. Pabbi fékk nokkur góðár þar sem hann gat keyrt sjálfur, fór í tréskurð í Árskóga þar sem hann skar út mikið af fallegum verkum með vinstri hendi. Hann gat búið áfram í húsinu sínu með mömmu. Hann fór með okkur í 4 skemmtilegar ferðir út í Hrísey og þá var farið í sund og göngutúra, grillað, hlustað á Bigga spila á gítar og fleira.  Í hans huga var ekkert sem hét að gefast upp og er ég svo þakklát fyrir að hafa fengið það veganesti út í lífið. Leti var líka ekki til í hans orðabók. Fyrir 8 árum fór svo að halla undan fæti, hann fór að sýna mikla persónuleikabreytingu vegna framheilabilunar og var því ljóst að nú þurfti breytingar. Hann fór á Landakot, síðan Vífilstaði og loks í júní 2016 fékk hann pláss á Sóltúni. Þegar þangað var komið vildi hann taka þátt í öllu sem var í boði, iðjuþjálfun,sjúkraþjálfun, lestri úr dagblöðum eða bókum. Pabba leið vel á Sóltúni og naut frábærrar umönnunar. Ég get ekki með orðum þakkað öllu því starfsfólki sem vann sína vinnu af nærgætni, virðingu og óendanlegum miklum kærleik. Allt hefði verið erfiðara án ykkar. Ég veit ekki hversu oft ég hef haldið að nú væri ég að kveðja pabba en alltaf náði þessi sterki og þrjóski pabbi minn sér aftur.  Pabbi hafði gaman af því að fá til sín gesti í heimsókn. Við gættum að því að það kæmi alltaf einhver til hans á hverjum degi. Oft var það skipulagt í sunnudagskaffi vikunnar, hver kæmi hvaða dag. Elsku Dada, Nonni og Árni æskuvinur pabba. Takk fyrir alla hjálpina. Við pabbi fórum oft í göngutúra þegar ég kom til hans, hann var þá í hjólastól og ég keyrði hann um hverfið. Hann hafði mikinn áhuga á að fylgjast með framkvæmdum á gömlum húsum í hverfinu sem hann ólst upp í. Oft sat ég hjá honum og prjónaði og við horfðum á sjónvarpið eða hlustuðum á jazz. Eftir að pabbi dó myndaðist mikið tómarúm, sunnudagskaffiboðin verða öðruvísi án hans. Alltaf vildi hann koma í Brekkuhvarfið, þar hitti hann fólkið sitt,stundum voru margir stundum fáir. Biggi spilaði fyrir afa sinn á gítarinn og langafastrákarnir fóru í breiða fangið hans. Ég sakna þess að heyra ekki hláturinn þinn, sjá fallega brosið þitt, horfa í fallegu bláu augun þín. En ég hugga mig við að nú þurfir þú ekki að þjást lengur.

Bæta við leslista

Minningarorð til tengdapabba

Í örfáum orðum langar mig að minnast tengdaföður míns Birgis Scheving. Kynni okkar hófust fyrir hartnær 37 árum síðan þegar að ég og Bogga dóttir hans rugluðum okkar reitum saman. Ekki leist honum betur en svo á piltinn að hann bað dóttur sína að gleyma þessum manni. Síðan þá hefur ekki borið skugga á okkar samband og vináttu.

Bæta við leslista

Bréf til afa

Það hefur verið skrítið síðan að þú fórst, ég er ennþá að bíða eftir þér innst í hjarta mínu. Þung tár hafa runnið og ég á eftir að segja þér svo margt. Það var sólríkt kvöldið sem þú kvaddir okkur og himininn hefur hlýjað með fallegum sólsetrum síðan að þú fórst frá okkur. Það minnir mig á þig afi. Mér finnst eins og ekkert muni verða hið sama aftur. Öll ævintýrin sem æskan á, yljar okkur nú er þú ert farinn. Ég man svo marga skemmtilega daga með þér sem barn jafnt sem fullorðin og þykir mér það svo dýrmætt að hafa átt þig að alla tíð. Þegar við vorum að byggja Haukalindina, allar bílferðirnar, brasið í garðinum í Þingásnum, keiluferðina okkar, sunnudagskaffiboðin í Brekkuhvarfinu og svo margt fleira sem að yljar brotnu hjarta. Liam saknar þín svo sárt og spyr reglulega hvort það verði sunnudagskaffi, en hvað eru sunnudagskaffiboðin án þín?  Það var svo ósanngjarnt hvernig örlög þín urðu fyrir 14 árum, en að sjá hvað þú tókst þeim á þinn einstaka máta með æðruleysi, viljastyrk og seiglu að vopni var aðdáunarvert. Allt sem þú varst og gerðir var aðdáunarvert, til þíns hinsta dags. Það verður seint til myndarlegri, sterkari og hugrakkari maður en þú afi minn. Þú mættir öllum með opnum örmum en lést ekki yfir þig ganga. Enginn var æðri eða meiri en næsti maður. Þú nenntir okkur grallaraspóunum alltaf og leyfðir okkur að brasa með þér, prufa sögina þína, þrífa garðinn, byggja með þér eða fara í nebbaslag. Þú gerðir allt og ekkert með okkur sem voru einstaklega dýrmætir tímar fyrir okkur systkynin, gríslingana þrjá. Knúsin þín með grófu smíða höndunum þínum virðast þúsund sinnum dýrmætari en ég áttaði mig á sem lítil skotta, þegar ég reyndi að losna undan innilegustu afaknúsunum sem voru þau hlýjustu og bestu. Það varð alltaf allt í lagi í þínum örmum. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að verja miklum tíma með þér undanfarin ár. Það voru alltaf góðar stundir, þó ég hefði viljað gera svo miklu meira fyrir þig. Eins og að hjálpa þér að ganga, eða fá málið og kraftinn aftur. Það var svo sárt afi, en ég vona að þú vitir að við gerðum allt sem við héldum að væri best fyrir þig. Ég hefði átt að koma oftar, fara í fleiri göngutúra, sitja meira hjá þér og svo margt sem ég hefði átt að nýta tímann betur í. Við áttum þó skemmtilegar stundir saman eins og í bíltúrum, vikulegum kvöldmatarboði sem þið amma komuð alltaf í Haukalindinni, heimsóknum í tréskurðinn, Landakot og svo seinna á Sóltún, skutlið í talþjálfun og tréskurð, í flyover iceland, keilu, göngutúrum við sjóinn og í hverfinu, klippingarnar, með Ronaldo og þér, sunnudagskaffiboðin hjá mömmu og margt, margt fleira. Ég mun aldrei gleyma kveðjustund okkar og hinsta samtalinu sem við áttum saman. Er ég horfði svo djúpt í fallegu skínandi bláu augun þín og kvaddi þig. Það var svo einstakt, erfitt og fallegt. Lífið er ekki það sama án þín afi, afþví að þú litaðir upp heiminn minn. Ég læt fylgja með ljóðið þitt sem ég las fyrir þig í síðasta skipti kvöldið sem þú kvaddir. Minning þín og máttur mun lifa með okkur þangað til við hittumst á ný. Góða ferð afi minn, ég elska þig og ég sakna þín svo innilega sárt. Þinn gríslingur, Ester. 

Bæta við leslista