Afi Daddi
Það er sárt að kveðja afa Dadda en eftir lifa minningarnar. Á sumrin vildi maður hvergi annars staðar vera en á Selfossi, hjá ömmu Rúnu og afa Dadda, ástríkara fólk var vart að finna. Sama hvenær dags okkur bar að garði þá fylltist litla eldhúsborðið á Sólvöllum samstundis af kræsingum, það þýddi lítið að biðja þau um að draga úr ómakinu og alltaf sat afi Daddi á sínum stað og spurði frétta. Ef sá gállinn var á honum komu eftirhermurnar á færibandi. Það skipti litlu máli hvort maður þekkti til fyrirmyndanna því hláturinn og gleðin var svo smitandi. Það mátti læra margt af afa og taka sér til fyrirmyndar. Vinnuþrekið og atorkan var engu lík og fram eftir aldri, þegar hægði á flestum jafnöldrum hans, var hann eftir sem áður einhvers staðar að hamast, úti í garði, uppi á þaki eða í bílskúrnum. Afi var ljúfur maður, og væntumþykjan fór ekki á milli mála en ef hann sá til manns fara sér mögulega að voða hikaði hann ekki við að láta mann heyra það. Sömuleiðis ef gerðar voru tilraunir til að leysa verk eftir einhverri annarri forskrift en hvíldi í hans eigin kolli.