no image

Fylgja minningarsíðu

Ásta Ólafsdóttir

Fylgja minningarsíðu

8. janúar 1939 - 30. mars 2022

Andlátstilkynning

Ástkær eiginkona mín, móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, Ásta Ólafsdóttir Miðengi 15, fyrrum bóndi á Skúfslæk, lést á hjúkrunarheimilinu Lundi 30. mars.

Útför

13. apríl 2022 - kl. 13:00

Útförin fer fram frá Selfosskirkju miðvikudaginn 13. apríl klukkan 13

Aðstandendur

Sigurður Einarsson, Magnús Eiríksson, Magdalena Lindén, Árni Eiríksson, Sólveig Þórðard., Ólafur Eiríksson, Halla Eiríksd., Erling Valur Friðriksson, barnabörn og barnabarnabörn

Þakkir

Innilegar þakkir færum við starfsfólki dagdvalarinnar Vinaminnis og hjúkrunarheimilisins Lundar fyrir einstaka umönnun og hlýju.

Minning um mömmu

Í dag fylgi ég kjarnakonunni henni móður minni síðasta spölinn. Margs er að minnast frá langri ævi og mamma lifði svo sannarlega tímana tvenna eins og hennar kynslóð öll. Hennar fyrstu minningar eru frá stríðsárunum þegar dátarnir frá nálægum kampi komu að kíkja á uppkomnar systur hennar í Syðstu-Mörk, þá gaukuðu þeir rúsínum eða gotteríi í lítinn lófa mömmu sem kunni að meta sætindin. Ekki tókst dátunum að krækja í heimasæturnar en minningin um góðgætið lifði og reyndar einnig þegar einhver þeirra lenti í ógöngum í fjóshaugnum við að kíkja á stelpurnar en það er önnur saga. Önnur minning sem hún rifjaði gjarnan upp var Heklugosið 1947 enda lék askan úr gosinu bæi undir Eyjafjöllum grátt og var um tíma tvísýnt um framhald búskapar þar, en hressilegt hvassviðri og mikil vinna við hreinsun bægði þeirri hættu frá. Það var einmitt í kjölfar Heklugossins að fyrsti Willis jeppinn kom á bæinn. Eins og gjarnt var um þá bíla þá var hann notaður í margt fleira en bara farþegaflutninga, því hann var líka ígildi traktors og fór mamma snemma að keyra hann og nota við hin ýmsu verk. Eftirminnilegt þótti henni þegar hún tók bílprófið þá keyrði hún auðvitað einsömul frá Syðstu-Mörk og yfir gömlu Markarfljótsbrúna og hitti prófdómarann hinu megin við brúna til að taka prófið, sem hún stóðst auðvitað með glans enda þaulvanur bílstjóri. Sennilega gengi þetta fyrirkomulag nú ekki upp í dag. Mögulega skóp Willisinn bílaáhugann sem blundaði í mömmu alla tíð. Hún var löngum vakin og sofin yfir smáauglýsingum blaðanna til að fylgjast með bílaauglýsingum og reyndar ýmsum fleiri auglýsingum. Eftir að tölvuöld brast á þá voru vefsíður eins og bilasolur.is og bland.is teknar við af smáauglýsingunum og keypti hún bæði bíla, hest og hjólhýsi í gegnum slíkar netauglýsingar komin á áttræðisaldur.

no image

Bæta við leslista

Til minningar um Ástu tengdó

Ég var svo heppinn að kynnast heimasætunni frá Skúfslæk fyrir rúmum áratug og kynntist þá í leiðinni tengdamóður minni Ástu Ólafsdóttur frá Syðstu Mörk. Ásta var mikið náttúrubarn og undi sér vel að bralla eithvað hvort sem það var í garðinum, sveitinni, á ferðalagi um landið eða hreinlega að braska eitthvað í viðskiptum. Ásta var nefnilega mjög atorkusöm og með bíla- og tækjadellu og keypti gjarnan bíla og hjólhýsi eftir auglýsingum á internetinu, sem ekki margir af hennar kynslóð drífa í. Ásta sagði manni oft sögur af uppvaxtarárum sínum og hún var stolt af því þegar hún var matráður með vinnuhópa þegar hún var ung og þegar við Halla byggðum bílskúrinn fyrir utan heimili okkar þá var ekki annað tekið í mál en að hún sæi um að elda ofaní okkur smiðina hádegismatinn (það þurfti nú ekkert að tuða í mér með það samt).

no image

Bæta við leslista