no image

Fylgja minningarsíðu

Anton Rúnar Helgason

Fylgja minningarsíðu

10. júní 1960 - 21. júní 2025

Andlátstilkynning

Anton Rúnar Helgason, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, Bolungarvík, fæddist á Siglufirði 10. júní 1960. Hann lést á gjörgæsludeild LSH 21. júní 2025.

Útför

Útför hefur farið fram.

Aðstandendur

Foreldrar hans voru Sigurður Helgi Árdal Antonsson f. 22. október 1930, d. 12. október 2012 og Hanna Júlía Heiðar Hannesdóttir, f. 10.október 1934. Systkini Antons eru Hannes Olgeir Helgason, f. 17. júlí 1954, d. 7. maí 1956, Hannes Olgeir Árdal Helgason, f. 17. apríl 1957 kvæntur Halldóru Dröfn Gunnarsdóttur, f. 24. ágúst 1961 og Helga Hlín Helgadóttir, f. 14. janúar 1967 gift Kristjáni Rafni Harðarsyni, f. 21. október 1965. Þann 13. Febrúar 1988 kvæntist Anton eftirlifandi eiginkonu sinni Elínu Jónínu Jónsdóttur, f. 13.ágúst 1961 á Akureyri. Foreldrar Elínar eru Jón Laxdal Jónsson, f. 18. október 1932 og Magnea Ólöf Oddsdóttir, f. 11. mars 1938. Börn Antons og Elínar eru: 1) Lóa Júlía Antonsdóttir, f. 13. júlí 1986 í Reykjavík, eiginmaður hennar er Magnus Andersson, f. 8. Mars 1985 í Svíþjóð. Barn þeirra er Sonja Elín, f. 15. október 2022. 2) Daníel Örn Antonsson, f. 17. júlí 1990 í Trondheim í Noregi, kvæntur Ásdísi Rún Ólafsdóttur, f. 7.júlí 1993 á Ísafirði. Þeirra börn eru: 1) Katrín Dalía, f. 2.júlí 2012, 2) Hugrún Vaka, f. 1. júní 2020, 3) Nikulás Árdal, f. 1. nóvember 2022.

Orðstír deyr aldregi

Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama; en orðstír deyr aldregi, hveim er sér góðan getur. (Úr Hávamálum) Á lengsta degi ársins kvaddi Anton (Toni) bróðir þennan heim eftir erfið veikindi. Hann kvartaði samt aldrei og alltaf þegar spurt var um hvernig hann hefði það var svarið „bara fínt“. Fyrstu minningar eru tengdar barnsárunum á Hvanneyrarbrautinni á Siglufirði. Með Tona í herbergi voru páfagaukar sem hann leyfði að fljúga frjálsum í herberginu. Svo bættust við skjaldbökur og síðan hagamýs sem hann hafði í búri við litla hrifningu foreldra. Síðar hófst kanínurækt í bílskúrnum og gleði föður okkar var takmörkuð þegar þær sluppu úr búrinu og gerðu sér hreiður í bólstruðum sætum heimilisbílsins. Við vorum nágrannar og því hæg heimatökin að fá bróður og hans konu til að passa Lóu. Eitt skipti vorum við beðin að passa Lóu og komum í Safamýrina og sjáum þau hjónaleysin drellifín hverfa út og ekkert máttum við vita hvert þau væru að fara. Stuttu síðar komu þau aftur sem hjón. Höfðu þá brugðið sér til prests og heitið hvoru öðru tryggð og trúnaði í hjónabandi. Toni lærði líffræði í H.Í. og fór ásamt eiginkonu og dóttur til Þrándheims í Noregi til framhaldsnáms þar sem hann lagði stund á frumulíffræði til Cand Scient prófs. Áhugi hans á frumulíffræði vaknaði er hann vann hjá RALA við einræktun á kartöflum. Í Þrándheimi stækkaði fjölskyldan og Daníel Örn bættist í fjölskylduna. Snemma á lífsleiðinni fór að bera á ofnæmi sem átti eftir að hrjá hann lengi. Hugsanlega út frá því valdi hann sér annan bústað og starfsvettvang eftir nám og tók að sér heilbrigðiseftirlit á Vestfjörðum með búsetu í Bolungavík, þau urðu Víkarar. Þessu starfi gegndi hann fram á dánardag. Þar var réttur maður á réttum stað. Einstök ljúfmennska tryggði að hann var einstaklega vel liðinn í starfi. Tryggð hans og trúmennska við starfið var einstök og þegar tekin voru sýni til rannsókna sem þurfti að koma hratt og örugglega til rannsóknarstofu „skrapp“ hann með þau suður. Hann „skrapp bara í kaffi“ til systkina sinna fyrir sunnan og munaði ekkert um að skreppa á Siglufjörð í leiðinni og heimsækja foreldra okkar. Fyrir 15 árum greindist Toni með illvígt krabbamein og fór hann til Svíþjóðar í mergskipti. En mergskiptunum fylgdi lyfjakokteill til bælingar á ónæmiskerfinu og síðustu ár var farið að bera á aukaverkunum í lungum og þrálát lungnabólga hrjáði hann allt til æviloka.

Bæta við leslista