Mamma Mín
Elsku mamma mín, ég trúi því ekki að ég sé að fara að skrifa um þig núna strax. Það er svo sárt að reyna að trúa því að þú sért frá okkur svona snemma. Ég elska þig svo mikið og vildi óska þess að við hefðum fengið lengri tíma saman. Ég vil þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig öll árin. Ég veit að ég var mjög erfið en þú elskaðir mig í blíðu og stríðu eins og sönn mamma, takk fyrir það elsku mamma. Takk fyrir að hafa látið mig brosa, gráta og hlæja. Takk fyrir að hafa kennt mér og leiðbeint mér, takk fyrir að hafa staðið með mér í gegnum súrt og sætt, takk fyrir að hafa verið þú. Ég sakna þess að tala við þig og fá ráðleggingar, sakna þess að fá koss frá þér á kinn, sakna þess að faðma þig, sakna alls við þig. Ég veit að núna ertu verkjalaus, loksins verkjalaus eftir öll þessi ár og ég veit líka að pabbi er glaður að hafa fengið konuna sína til sín. Elsku mamma mín ég á eftir að sakna þín og mun aldrei gleyma þér, þú átt alltaf stóran stað í hjarta mínu og ég mun halda minningunni um þig lifandi.
Þín dóttir Birna Ósk