no image

Fylgja minningarsíðu

Anna Jóhannesdóttir

Fylgja minningarsíðu

30. október 1924 - 6. maí 2018

Útför

Útför hefur farið fram.

Kveðja frá Þórdísi

Það var engin fyrirferð í henni ömmu. Þvert á móti var hún hógvær og hljóðlát -nett sem hún var. Hún var mjög umhyggju- og hugulsöm, hafði góðan húmor og var mjög hreinskilin. Við afkomendur hennar eigum öll góðar og (allavega eftir á) kómískar sögur af hreinskilnum athugasemdum frá henni. Hún var víðlesin og klár, ferðaðist víða og var góður briddsspilari. Hún fylgdist vel með því sem ég tók mér fyrir hendur og alltaf var hægt að leita til hennar með ýmis mál. Að taka í spil við eldhúsborðið, með fordrykk við hönd, á meðan matur mallaði í pottum var klassík á heimili ömmu. Þar voru málin rædd, ráð gefin og veislur skipulagðar. Ferðasögur voru sagðar og bókadómar féllu.

Bæta við leslista

Kveðja frá Ragnheiði, Huldu og Önnu

Okkur langar til að minnast einstakrar konu, Önnu Jóhannesdóttur ömmu okkar og tengdamömmu. Amma Anna var ljúf kona sem tók vel á móti öllum og fannst gaman að bjóða fólki heim til sín. Okkur fannst einstaklega skemmtilegt að vera boðin til hennar og afa í mat. Hún ásamt afa Tómasi kunnu vel að velja fólk til borðs og með einstakri næmni að tengja saman fólkið sitt, vini, ættingja og annað samferðafólk. Amma Anna var bókhneigð og góð fyrirmynd hvað lestur varðar. Henni fannst gaman að lesa og ræða um bækur og bókmenntir og sýndi áhuga á lestri okkar systra og hvatti okkur áfram. Hún og pabbi okkar nutu þess að ræða um bækur og voru dugleg að benda hvort öðru á skemmtilegar bækur svo skemmtilegt var á að hlusta. Hún var ástríðufullur krossgátuleysari og einstaklega ættfróð. Hún var hvetjandi hlustandi og fagnaði öllum tónlistarflutningi. Þegar amma og afi fóru að eldast þá nutum við þess að fá þau í mat og svo var spilað fyrir þau á hljóðfæri yfir kaffinu. Þau voru komin á efri ár þegar við systurnar í Hjálmholtinu fæddumst og við vorum svo lánsamar að þau voru með okkur á aðfangadagskvöld og glöddust með okkur í pakkaflóðinu, við bjuggum saman til aðfangadagshefðir og söfnuðum mörgum dýrmætum minningum. Við gleðjumst yfir því að amma Anna náði að vera við fermingu Önnu Soffíu nöfnu sinnar og yngsta barnabarns í apríl sl. Síðustu árin bjó amma Anna á Grund þar sem hún fékk góða umönnun og þangað var gaman að koma, spjalla, dekka kaffi og borða sætabrauð. Hennar er sárt saknað en minningin lifir.

Bæta við leslista