Ágúst Óskarsson
Það var spennandi að fá nýjan íþróttakennara í Mosfellssveitina. Hann var snaggaralegur, vöðvastæltur og hress í viðmóti. Ágúst Óskarsson kom með nýjungar í kennsluna, var ákveðinn við okkur en alltaf sanngjarn. Ekki voru aðstæður til kennslu upp á marga fiska í Hlégarði þar sem kennslan fór fram. Þrátt fyrir það var alltaf tilhlökkun að fara í íþróttatíma til Ágústs. Margar góðar og ljúfar minningar tengi ég við Ágúst sem varð traustur og góður vinur minn þegar fram liðu stundir. Ágúst bauð mér að koma í sumarvinnu á hótelið að Laugum í Reykjadal þar sem ég var í nokkur sumur. Fyrsta ferðin okkar norður í land úr Mosfellssveitinni er minnisstæð. Við Ágúst fórum snemma vors norður í Lauga á flotta Toyota Crown bílnum hans sem var með plötuspilara sem þótti flott á þeim tíma. Við stoppuðum góða stund á Sunnuhvoli í Skagafirði hjá móðurforeldrum Ágústs. Foreldrar Ágústs, Óskar og Elín ráku hótelið á Laugum í mörg ár. Vorin og sumrin á Laugum voru afskaplega skemmtileg, margar góðar minningar og alltaf gott veður. Sund- og íþróttanámskeiðin á vorin voru alltaf skemmtileg og þar var Ágúst í essinu sínu við kennslu og þjálfun. Eftir að skóla og námskeiðum lauk var mikið að gera við að koma öllu í stand áður en hótelið opnaði. Ágúst þjálfaði okkur strákana í Reykjadalnum í knattspyrnu. Ágúst kenndi mér að ganga á höndum og áttum við það til að ganga á höndum hlið við hlið á gangstéttunum við Laugaskóla. Ógleymanlegar veiðiferðir í Laxárdal, Laxá í Mývatnssveit og Másvatn. Við veiddum oftast í Reykjadalsá. Ágúst kom iðulega með lax heim úr Reykjadalsánni enda góður veiðimaður.