Til ömmu Öllu
Í dag er borin til grafar amma mín, Aðalheiður Sigurjónsdóttir. Amma Alla var svo góðhjörtuð og hlý, skemmtileg og hress. Hún svaraði alltaf svo hress í símann þegar hún hringdi eða maður hringdi í hana, en hún sagði alltaf „komdu sæl“ mjög hress og kát. Hún og afi Mundi pössuðu mig stundum á Höfn þegar ég var lítil og hún skipti aldrei skapi og vildi allt fyrir mann gera. Ég var með sítt og þykkt hár sem barn en var ekki mikið fyrir að greiða á mér hárið eða láta greiða mér, amma sagði við mig að ef ég færi ógreidd út þá myndi sólin hlægja að mér. Ég trúði henni auðvitað og fékkst því til að láta hana greiða á mér hárið. Ég hugsa oft til þessa orða enn í dag, og passa mig að sjálfsögðu á að fara ekki út ógreidd svo sólin fari nú ekki að hlægja að mér. Það var alltaf gaman að fara í heimsókn til ömmu, hún var mikill gestgjafi og tók alltaf á móti manni með fullu borði af veitingum þó maður kæmi bara einn í heimsókn til hennar. Hún gerði bestu kleinur sem ég hef smakkað sem voru geymdar í stóru boxi inni í skáp og var ég fljót að taka boxið fram þegar ég kom til hennar sem barn. Amma var mikil handavinnukona og þykir mér mjög vænt um þau handverk sem hún hefur gefið mér og mínum. Þar má helst nefna heklað rúmteppi sem ég fékk í fermingargjöf, ungbarnateppi sem hún gaf mér þegar Bjarki Þór frumburðurinn okkar Brynjars fæddist, prjónaðan kjól og saumaða mynd af meri með folaldi sem ég fékk í innflutningsgjöf þegar við Brynjar keyptum okkar fyrstu íbúð. Ég fór oft í heimsókn til ömmu þegar ég var í skóla á Höfn í þrjú ár. Afi Lulli sem bjó á hæðinni fyrir ofan ömmu kom þá iðulega niður til okkar og við tókum í spil saman og spjölluðum. Þegar ég flutti suður hitti ég ömmu ekki eins oft en nýtti þó hvert tækifæri sem gafst og ég er mjög þakklát fyrir að allir strákarnir mínir hafi fengið að kynnast henni. Elsku amma ég er þakklát fyrir öll árin með þér og sakna þín mikið og ég veit að afi Mundi tekur vel á móti þér. Það er mér mikill heiður að fá að fylgja þér síðasta spölin á þessari jörð.