no image

Fylgja minningarsíðu

Ágústa Eiríksdóttir

Fylgja minningarsíðu

17. nóvember 1921 - 27. janúar 2013

Útför

Útför hefur farið fram.

Amma

Sunnudaginn 27. janúar sl. kvaddi hún amma mín þennan heim. Kona sem hefur verið hluti af öllu mínu lífi. Í minningunni um ömmu þá er mér efst í huga hláturinn hennar sem var svo smitandi og alltaf hló hún alveg niður í maga og með hjartanu. Amma Gústa var alltaf að, hún vildi helst aldrei stoppa og ef hún var ekki á ferðinni þá sat hún við hannyrðir og öll eigum við eitthvað fallegt eftir hana. Það sem stendur mér næst eru sængurver sem hún færði mér í tilefni af brúðkaupi mínu. Þessi sængurver þykir mér ákaflega vænt um. Amma saumaði líka alla kjóla á mig fyrir jólin og hún bjó til margt á mig langt fram á unglingsárin. Sumum af þessum kjólum man ég ennþá eftir. Allir sem hún þekkti held ég að eigi sokka eftir hana og alla sína handavinnu gerði hún með alúð og ást í huga. Við frænkurnar eigum ófáar minningar við eldhúsborðið hjá henni þegar afi sat og reykti pípuna sína og hún að hugsa um að gefa okkur eitthvað að borða. Alltaf var eitthvað til með kaffinu og best fannst mér randalínukakan hennar, ástarpungarnir og svo kleinurnar. Við skulum ekki gleyma heita súkkulaðinu hennar sem var alltaf borið fram í sparistellinu. Hún þreyttist seint á því að vera innan um fólk og stundum fannst systrunum (dætrum hennar) nóg um. Skildu bara ekkert í því að hún gat ekki setið róleg. Amma var ákaflega hjartahlý og góð kona og vildi allt fyrir alla gera. Ég var svo heppin að búa í miklu nábýli við ömmu og afa og ef eitthvað kom uppá þá var alltaf hægt að leita til þeirra. Faðmlög og hlýja sem þið áttuð stendur næst hjartanu og umhyggja ykkar gagnvart manni er það sem ég ber áfram til barna minna og þeirra sem standa mér næst. Elsku amma mín, takk fyrir samfylgdina og hvíldu í friði.

Bæta við leslista