Algengar spurningar

Hvaða upplýsingar þarf ég til að stofna minningarsíðu eða tilkynna andlát?

Til að byrja með eru einu upplýsingarnar sem þurfa að liggja fyrir nafn, fæðingardagur og dánardagur. Flestir hlaða einnig upp góðri mynd, sem getur verið nærmynd eða stærri mynd sem sýnir einnig umhverfi sem er eiginlegt hinni látnu manneskju. Ef engin mynd er valin birtist falleg, hlutlaus mynd úr myndasafni Minningar.is. Við tilkynningu andláts er einnig beðið um texta andlátstilkynningar, auk þess sem valkvætt er að setja inn nöfn aðstandenda.

Kostar að tilkynna andlát eða útför á Minningar.is?

Þjónusta Minningar.is er gjaldfrjáls almenningi. Þar með talið að tilkynna andlát eða útför. Andlátstilkynningar birtast undir „Nýleg andlát” og upplýsingar um væntanlegar útfarir undir „Útfarir“ á vefnum. Einnig er hægt að deila andlátstilkynningum, útfarartilkynningum eða þakkartilkynningum á formi fallegs tilkynningarspjalds á samfélagsmiðlum sem leiðir fólk á minningarsíðuna.

Get ég stofnað minningarsíðu um ástvin sem lést fyrir lengri tíma síðan?

Já. Minningar.is er vettvangur fyrir minningarsíður um alla sem eru fallnir frá, óháð dánardegi, auk þess sem hægt er að tilkynna andlát og útfarir, birta þakkir, skrifa og taka á móti minningargreinum og senda kveðjur.

Hver er munurinn á að tilkynna andlát og stofna minningarsíðu?

Í báðum tilvikum verður til minningarsíða um hina látnu manneskju. Á henni koma fram upplýsingar um andlátið, útförina og aðstandendur. Ef um er að ræða minningarsíðu vegna nýlegs andláts eða andlátstilkynningu birtist andlátið einnig undir „Nýleg andlát“ á vefnum. Á Minningar.is eru nýleg andlát skilgreind sem þau sem áttu sér stað fyrir innan við mánuði síðan.

Hvernig deili ég andlátstilkynningu, útfarartilkynningu, minningarsíðu eða þökkum á samfélagsmiðlum?

Deilingarhnappurinn (merktur sem grár punktur sem tengist með línum í aðra tvo punkta) er í boði á nokkrum stöðum. Þegar smellt er á hann opnast sá möguleiki að deila á samfélagsmiðlum. Hægt er að deila minningarsíðum, minningargreinum, andlátstilkynningum, útfarartilkynningum og þökkum.

Ég vil tilkynna útför á Minningar.is. Hvernig geri ég það?

Ef andlátið er nýlegt og búið að stofna minningarsíðu eða tilkynna andlát er hægt að fara á „Mitt svæði“, finna viðeigandi minningarsíðu og smella á „breyta.“ Í þriðja skrefi þar má setja inn upplýsingar um útför.

Af hverju þarf ég ekki að samþykkja notkun á vafrakökum á Minningar.is?

Vefurinn notast ekki við neinar vafrakökur sem krefjast samþykkis. Við mælum hvaða vefsíður er verið að skoða, hvaðan notendur koma og hvað skoðað er í hverri heimsókn. Það er gert án þess að nota vafrakökur og með nálgun sem tryggir að ekki er hægt að fylgjast með notkun tiltekins notanda á ólíkum dögum.

Geta fleiri en einn verið umsjónaraðilar að minningarsíðu?

Já, stofnandi minningarsíðu getur farið inn á „Mitt svæði.“ Þar undir „Minningarsíður“ er hægt að smella á „Umsjón“ á þeirri minningarsíðu sem við á og kemur þá upp sá möguleiki að bjóða öðrum að gerast umsjónaraðilar með því að setja inn netfang og senda boð.

Get ég haft fleiri myndir en eina á minningarsíðu sem ég hef stofnað?

Já einn af kostum Minningar.is er möguleikinn á að hafa fjölda mynda. Ef minningarsíða hefur verið stofnuð er hægt að fara á „Mitt svæði“, finna viðeigandi minningarsíðu og smella á „breyta.“ Þar í skrefi tvö er hægt að hlaða upp fleiri myndum. Einnig geta þeir sem skrifa minningargreinar sett myndir við þær.

Er hægt að senda aðstandendum kveðju á Minningar.is?

Já, á hverri minningarsíðu undir hnappnum „Skrifa minningargrein“ er örvarhnappur sem við stendur „Senda kveðju“ Ef þú hefur ekki enn skráð þig inn ferðu fyrst í gegnum innskráningarferli með rafrænum skilríkjum. Næst opnast gluggi þar sem hægt er að skrifa kveðju og senda. Kveðjan birtist á minningarsíðunni og umsjónaraðili hennar fær meldingu um hana í tölvupósti.

Hvernig breyti ég fæðingardegi eða dánardegi á minningarsíðu sem ég hef þegar birt á Minningar.is?

Eftir að minningarsíða hefur verið stofnuð og birt á vefnum getur notandinn ekki sjálfur breytt dagsetningunum. Við getum hins vegar gert það fyrir þig ef við fáum beiðni um það með tölvupósti á minningar@minningar.is.