16. febrúar 2022
Nánd skiptir öllu máli
Minningar ræddu við Huldu Guðmundsdóttur um sorg og missi, sorg í menningu Íslendinga og tilurð Sorgarmiðstöðvar, þar sem hún starfar sem gjaldkeri og situr í stjórn.
Ein af stofnendum Sorgarmiðstöðvar
Hulda Guðmundsdóttir er skógarbóndi og M.A. guðfræðingur, búsett að Fitjum sem er fallegur kirkjustaður í Skorradal. Hulda er ein af stofnendum Sorgarmiðstöðvar sem býður upp á stuðning við fólk í sorg, en þar er m.a. hægt að sækja fræðsluerindi um missi og taka þátt í margvíslegu hópastarfi.
Þekkir missi af eigin raun
Hulda hefur starfað með syrgjendum um langt skeið en á sínum tíma, í kjölfar þess að hafa misst eiginmann sinn úr krabbameini, gekk hún til liðs við Nýja dögun, samtök um sorg og sorgarviðbrögð.
„Maðurinn minn fékk heilaæxli og var bara mjög veikur í mjög langan tíma þar til hann lést. Við vorum með tvö lítil börn þannig að þetta var frekar erfitt tímabil. Þegar ég fór að leita að stuðningi fann ég eiginlega ekki neitt fyrr en mér var bent á Nýja dögun.“
Skorradalur
Tímamót hjá Nýrri dögun
Árið 2017, þegar Ný dögun átti 30 ára starfsafmæli fór stjórn samtakanna að skoða hvernig best væri að fagna þessum tímamótum. Ný dögun leitaði liðsinnis annarra grasrótarsamtaka í þessari hugmyndavinnu sem má segja að hafi verið fræið að Sorgarmiðstöð eins og við þekkjum hana í dag.
„Við ákváðum að halda fund og bjóða til hans fulltrúum annara grasrótarsamtaka sem væru að fást við sorg og sorgarúrvinnslu. Þetta voru samtökin Ljónshjarta fyrir ekkjur og ekkla, Birta fyrir foreldra sem hafa misst börn skyndilega og Gleym mér ei fyrir fólk sem hefur orðið fyrir missi á meðgöngu og í eða eftir fæðingu. Svo buðum við líka ýmsum fagaðilum sem sinna syrgjendum í starfi sínu, t.d. fulltrúum lögreglu, prestum og starfsfólki Líknardeildar Landspítalans.“
Sorgarmiðstöð verður til
Yfirskrift fundarins sem blásið var til var „Hvað getum við gert betur fyrir syrgjendur á Íslandi í dag?“ og svarið var skýrt: Við þurfum sorgarmiðstöð.
„Grasrótarsamtökin voru með frekar lítið bolmagn en höfðu þó t.d. verið að halda úti jafningjahópastarfi. Fram að þessum tíma hafði auðvitað verið hægt að vísa á presta en það vantaði samt fleiri valkosti sem væru alltaf aðgengilegir. Eftir þennan mikilvæga fund tókst þeim aðilum sem komu að verkefninu með þrotlausu, óeigingjörnu starfi að koma Sorgarmiðstöð á fót á aðeins tveimur árum.“
Þjónustan
Með tilkomu Sorgarmiðstöðvar hefur aðgengi syrgjenda að stuðningi verið stórlega bættur og starfsemi hennar einkennist í senn af kærleika og framsýni.
„Við höfum allavega getað sinnt ákveðinni grunnþjónustu við syrgjendur og haldið úti stuðningshópastarfi byggðu á jafningjahugsjón. Það þýðir að allri stuðningshópavinnu er stýrt af aðilum sem hafa menntun eða mikla reynslu af sorgarúrvinnslu og svo líka manneskju sem hefur staðið í sömu sporum og er tilbúin að deila sinni reynslu, t.d. ekkli eða ekkju þegar um er að ræða makamissishóp o.s.frv.“
Sorg í menningu Íslendinga
Hulda hefur kynnst því vel bæði af eigin reynslu og í starfi sínu með Nýrri dögun og hjá Sorgarmiðstöðinni að í menningu Íslendinga er ekki mikið svigrúm fyrir sorg og syrgjendur.
„Ef við spáum aðeins í okkar menningu, þá er hún mjög lokuð. Það er ætlast til að fólk sé búið að jafna sig ótrúlega fljótt eftir missi og mjög lítið þol fyrir að fólk sé að syrgja í einhvern tíma. Sumir forðast að tala um hinn látna, fara jafnvel þvert yfir götuna til að þurfa ekki að mæta þeim sem er að syrgja og finnst óþægilegt að mæta manneskjunni sem er í sorg. Það er frekar ríkjandi í menningunni okkar að við eigum að komast yfir þetta strax og halda áfram en kannski er þetta aðeins að breytast.“
En hvað myndi Hulda ráðleggja manneskju sem veit að einhver er að syrgja og veit ekki hvernig hún á að vera? Hvernig á maður að nálgast manneskju sem er að syrgja?
„Opnar spurningar geta hjálpað því fólk er oft hætt að minnast á hinn látna af því enginn opnar á það í umhverfinu.“
„Það er svosem ekkert eitt einfalt svar við þessu. Það fer svolítið eftir hversu vel fólk þekkir þann sem er í sorg hversu persónulegt það treystir sér til að vera. En ef þetta er vinur eða vinkona sem þú hefur þekkt lengi og það er nokkuð liðið frá andláti sem viðkomandi hefur aldrei talað um, þá er best að vera hispurslaus en einlægur á sama tíma og segja til dæmis: „Ég veit þú misstir mömmu þína þarna um árið. Hvernig fórstu í gegnum það? Hvernig hefur þessi tími verið? Hvers saknarðu mest?“ Opnar spurningar geta hjálpað því fólk er oft hætt að minnast á hinn látna af því enginn opnar á það í umhverfinu.“
Breyttir tímar
Hulda missti manninn sinn fyrir í lok tíunda áratugarins. Er eitthvað sem hefur breyst í samfélaginu síðan þá þegar kemur að sorg og sorgarúrvinnslu?
„Ég held að öll þessi opnun sem hefur gerst bara á síðustu árum, eða öll þessi brot á tabúum, sé að hjálpa í svo mörgu tilliti. Það er loksins farið að tala um og komin viðurkenning á því sem fólk getur orðið fyrir eins og ofbeldi, andlegum veikindum, kulnun o.s.frv. Við sjáum það hjá Sorgarmiðstöð að við erum að fá inn fólk sem missti kannski fyrir löngu síðan en vann aldrei úr því. Líka með tilkomu Sorgarmiðstöðvar er fólk meira og meira að sjá að sorg er eitthvað sem við tökumst á við. Við erum rödd í samfélaginu sem segir fólki að það sé eðlilegt að við leitum eftir stuðningi þegar við missum nákomna ástvini.“
Nánd á tímum COVID
Eins og fleiri stofnanir og fyrirtæki í samfélaginu hefur Sorgarmiðstöð þurft að mæta áskorunum vegna COVID-19 faraldursins.
„Við vorum bara rétt að byrja að setja upp okkar dagskrá og áform þegar öllu var skellt í lás og síðan höfum við þurft að vera í þessum fasa. Á erindinu Þegar ástvinur deyr, sem er fyrir þau sem hafa nýlega misst, þá vorum við upphaflega með 40 til 50 manns í salnum. Það er eiginlega óhugsandi að halda slíkt erindi í gegnum tölvuskjá, svo við höfum haldið áfram að hafa það hjá okkur reglulega og þá farið eftir þeim fjöldatakmörkunum sem eru í gildi hverju sinni. Með fólk í salnum verður alltaf samspil og umræða í hópnum sem skapar góða nánd sem er svo mikilvæg fyrir fólk sem er þarna að stíga fyrsta skrefið í að leita sér stuðnings.“
Sorgarmiðstöð og framtíðin
Við ræddum loks við Huldu um hvernig hún sér fyrir sér stöðu Sorgarmiðstöðvar þegar COVID er að baki og hvaða möguleikar eru fyrir hendi í að styðja enn betur við syrgjendur í framtíðinni.
„Ég sé fram á mikilvæga tíma hjá Sorgarmiðstöð þegar starfsemin getur aftur gengið eðlilega fyrir sig og án takmarkana. Reynslan hefur byggst upp og nýjar hugmyndir eru stöðugt að fæðast. Mig langar t.d. að benda á sjónvarpsþættina „Missir“ sem tókust mjög vel og hafa aukið skilning á stöðu syrgjenda. Eins vil ég nefna samstarf Sorgarmiðstöðvar og Borgarleikhússins um það sem við köllum „Samtal eftir sýningu“ sem tókst mjög vel eftir sýningu á verkinu „Eitur“ og verður næst eftir sýningu á verkinu „Ég hleyp.“ Bæði þessi verk fjalla um barnsmissi og hvernig foreldrar takast á við sorgina með mismunandi hætti. Þá gefst einmitt tækifæri til að ræða saman um það hvað við syrgjum með ólíkum hætti og hvernig mismunandi bjargráð gagnast fólki í þessum sporum.“
Samtalsdagur um dauðann
Eins og áður sagði eru hugmyndirnar margar en miða allar að sama markmiði: Að hjálpa fólki að takast á við sorg og missi.
„Hluti af hugsjón okkar er sú hugmynd að við náum sem samfélag að ræða dauðann af hispursleysi þannig að hann komi okkur ekki alltaf svona mikið á óvart og sé t.a.m. ekki alltaf óvinur sem þurfi að slást við.“
„Sjálfri hefur mig dreymt um það lengi að við búum til samtalsdag sem væri árlegur dagur sem fjölskyldur og ástvinir settust niður, t.d. yfir sunnudagsvöfflunum og veltu fyrir sér hvaða möguleikar væru í stöðunni ef einhvert þeirra félli frá. Þannig gæti fólk talað um dauðann sem eðlilegan hluta af lífinu, rætt mikilvægar upplýsingar eins hinstu óskir og reynt að horfast betur í augu við sinn eigin dauðleika.“