4. maí 2022

Blóm dreifa huganum

no image

Bryndís Eir Þorsteinsdóttir, blómaskreytir, ræddi við Minningar um tilganginn með blómum í sorg og gleði og gaf okkur nokkur ráð og hugmyndir varðandi blóm þegar andlát ber að. 

Fagmaður í skreytingum og útstillingum

Bryndís Eir Þorsteinsdóttir hefur starfað við blómaskreytingar í yfir tvo áratugi. Hún útskrifaðist sem blómaskreytir árið 2000 og er nú brautarstjóri blómaskreytingabrautar Landbúnaðarháskóla Íslands en starfar einnig sjálfstætt sem ráðgjafi, útstillingahönnuður og blómaskreytir. Bryndís Eir heldur úti Instagram-síðunni Blómdís þar sem hægt er að fylgjast með nýjustu verkefnum hennar hverju sinni. 

„Ég byrjaði mjög ung. Ég var örugglega með yngri nemendum sem hafa byrjað í þessu námi, rétt um 18 ára. Þannig að það má eiginlega segja að ég hafi unnið í blómum alla mína starfsævi.“

Huggun í blómum

Hverjir eru helstu kostir samúðarblóma þegar fólk vill sýna öðrum hluttekningu við fráfall ástvinar?

„Það er huggun í því að hafa blóm í kringum sig, hvort sem það er heima eða í jarðarförinni sjálfri. Blóm dreifa huganum á erfiðum stundum. T.d. þegar þú situr á kirkjubekknum og kistan er fyrir framan þig þá horfirðu á blómin. Svo mér finnst fallegar skreytingar og blóm skipta máli á svona dögum.

„Ég hef farið í jarðarför þar sem voru engin blóm. Það var svolítið tómlegt fannst mér og eitthvað líf sem vantaði í þá athöfn.“ 

Litir og form

Tölum aðeins betur um jarðarfarir. Það eru mjög sterkar hefðir til staðar varðandi blóm og blómaskreytingar í útförum, ekki satt? 

„Kransarnir eru algengasta formið hér heima enda er hringformið elsta skreytingarformið og táknar eilífðina, sem á sér hvorki með upphaf né endi. Ef við tölum um liti þá stendur hvítur alltaf fyrir sínu því hefðin er annað hvort hvítt og blátt, hvítt og rautt eða íslensku fánalitirnir. En í dag finnst mér þetta vera svolítið mikið að breytast. T.d. eru aðrir möguleikar í boði í staðinn fyrir kransa eins og krossar, hjörtu, blómvendir og skreytingar.“

„Við erum farin að hugsa meira út í manneskjuna sem lést og gera einstaklingsmiðaðri útfararskreytingar. Ég hef t.a.m. gert skreytingu í fyrir jarðarför garðyrkjumanns og þá notaði ég eingöngu efni úr garðinum hans heima.“

no image

„Það er orðið algengara vinna blómaskreytingar út frá karakternum. Segjum til dæmis að gulur hafi verið uppáhalds litur eða jafnvel einkennislitur manneskju þá er auðvitað sjálfsagt að setja hann með í blómin þegar hún er kvödd.“ 

Eru einhver blóm sem eru hreinlega ekki viðeigandi í útförum?

„Nei, ég man ekki eftir neinu blómi sem er algjörlega óviðeigandi fyrir samúð eða jarðarfarir. Ef skreytingin eða blómvöndurinn er að fara í heimahús bendi ég samt fólki oft á að nota ekki liljur af tegund sem ilmar, því lyktin getur verið yfirþyrmandi. Síðan ef fólk biður mann um að sleppa alveg einhverri blómategund þá mætir maður því auðvitað með bros á vör.“

Þannig að það er ekki beint hægt að stíga á strik í þessum efnum?

„Nei í rauninni ekki. Þegar fólk leitar til mín þá reyni ég bara svolítið að lesa í hvað það vill og mæta því eins mikið og ég get. Svo tekur maður boltann og leiðbeinir. Auðvitað kunna ekki allir allt um blóm svo það kemur í hlut okkar fagmannanna að uppfræða fólk og benda á leiðir.“ 

Mikilvægt að merkja útfararblóm rétt

Ef til stendur að gefa blóm eða kransa í útförina sjálfa þarf m.a. að hafa í huga hvernig gjöfin er merkt, því það segir til um hvert blómin eiga fara að útför lokinni. 

„Þumalputtareglan er að ef það er borði með kveðju á skreytingunni fer hún á leiðið eftir athöfnina. En ef aðstandendur eiga að fá blómin heim í lok dags lætur maður kort fylgja í stað borða.“ 

Umhverfisvænar lausnir

Umhverfismálin eru Bryndísi Eir hugleikin. Hún bendir t.d. á að altarisvendir sem aðstandendur hafa keypt geti líka nýst til að skreyta sal fyrir erfidrykkju. 

„Það sem er að breytast svolítið í faginu í dag er að við erum orðin mun meðvitaðri um að vera umhverfisvæn, sem er frábært og ég legg mikla áherslu á að koma nemendum mínum þangað.“

„Eins og á jólunum þá sér maður fólk stundum setja slaufur og skraut úr plasti á leiðisskreytingar í staðinn fyrir að nota t.d. köngla og alvöru epli sem eru þá handa fuglunum.“

„Það sem er að gerast í þessum geira er að við erum að leita nýrra umhverfisvænni leiða. Til dæmis græna efnið, eða stungumassinn, sem við höfum verið að nota m.a. í kistuskreytingar, er mjög óumhverfisvænt og eyðist eiginlega ekki í náttúrunni. En þessa dagana erum við að læra á nýtt efni á markaðnum sem er stungumassi unninn úr steinull. Hann eyðist hratt og örugglega í náttúrunni svo við tökum honum fagnandi.“ 

Góð orka í blómum

En hvað gera blóm fyrir okkur í daglega lífinu? Hvernig er framboð og eftirspurn eftir blómum á Íslandi? Eru tímarnir að breytast? 

„Ég held að margir séu að uppgötva hvað það er góð orka í blómum, bæði afskornum og pottablómum. Fólk finnur það t.d. þegar það heimsækir gróðurhús eða aðra græna staði hvað því líður vel.“ 

no image

„Íslendingar eru farnir að leyfa sér oftar að kaupa blóm af engu sérstöku tilefni sem er frábært fyrir þennan geira. Við erum með marga frábæra íslenska blómabændur hér heima og virkilega góða og hreina vöru. Þeir rækta margar tegundir af blómum eins og t.d. rósir, gerberur, liljur, krusa og túlipana. Á sama tíma er mun minna um ræktun á hinum Norðurlöndunum þar sem er ekki verið að mæta eftirspurninni með innlendri framleiðslu.“ 

Vakning í garðyrkju á Íslandi

Bryndís Eir hefur tekið eftir því að aðsóknin í nám á blómaskreytingum og garðyrkju í Landbúnaðarháskóla Íslands fer vaxandi, sem og áhugi fólks á hvers konar ræktun. Sérstaklega meðal ungs fólks.

„Þegar kreppir að hjá okkur eins og t.d. í miðju COVID, þá viljum við mörg fara að verða svolítið sjálfbærari og vera meira heima hjá okkur. Svo það er búið að vera sprenging í sumarblómum, kryddplöntum og afskornum blómum.“ 

„Uppi í Garðyrkjuskóla eru boðið uppá margskonar námskeið fyrir almenning, svo það er um að gera fyrir áhugasama að kynna sér framboðið á lbhi.is. Við bjóðum t.d. reglulega upp á blómaskreytinganámskeið. Eins er hægt að læra að forrækta grænmeti , kryddjurtir og fleira. Fólk þyrstir í að kunna bara eitthvað smá sem hægt er að gera heima, eins og að rækta kál og kryddjurtir. Þetta eru engin geimvísindi en maður þar samt að læra grunninn til að uppskera vel.“

Forréttindi að vinna með blóm

Bryndís Eir hefur unnið með blóm alla sína tíð og er mjög ánægð í starfi.  

„Þó ég hafi reynt að prófa eitthvað annað þá fer ég alltaf til baka í blómin. Það er bara eitthvað þarna. Hver dagur býður upp á ný verkefni og tækifæri til að búa til eitthvað fallegt handa fólki, hvort sem það er í gleði eða sorg.“

„Ég sé það líka hjá fólki sem hefur unnið við blómaskreytingar að það á ótrúlega erfitt með að slíta sig frá þeim. Ég þekki marga sem eru að vinna kannski eina helgi í mánuði. Bara til að koma við blómin og vera í kringum þau. Það er svo mikil heilun og næring í því.“ 

Tengdar greinar