15. desember 2021

Undirbúningur útfarar

no image

Útförin er kveðjuathöfn samfélagsins og opin fleirum en nánustu aðstandendum. Hún gefur fjölskyldu og vinum tækifæri til að eiga stund saman og heiðra minningu hinnar látnu manneskju.

Staður

Útfarir fara yfirleitt fram í kirkjum, kapellum eða bænhúsum. Sumir kjósa þó óvígt húsnæði og þá koma ýmsir staðir til greina að því gefnu að aðgengi sé gott og að þeir rúmi þann fjölda fólks sem ætla má að verði við athöfnina.

Stund

Að hafa kistulagningu og útför á sama stað á sama degi hefur færst í vöxt á síðustu árum en oft eru einhverjir dagar látnir líða á milli, sérstaklega þegar um ótímabært andlát, ungt fólk eða börn er að ræða. Í Reykjavík fara útfarir yfirleitt fram á virkum degi kl. 11, 13 eða 15 en á föstudögum, vegna styttingu vinnuviku, er aðeins hægt að jarðsetja fyrir hádegi. Á landsbyggðinni er nokkuð um útfarir á laugardögum til að gefa fleira fólki færi á að vera viðstatt.

Kristnar útfarir

Flestar útfarir á Íslandi eru með svipuðu sniði eða í samræmi við Helgisiðabók íslensku kirkjunnar en þær eru engu að síður frábrugðnar hver annarri, sér í lagi hvað varðar val á tónlist og flytjendum. Töluvert er um kórsöng og orgelleik, auk einsöngs og einleiks á önnur hljóðfæri. Einhver munur getur verið á lútherskum útförum og útförum hjá öðrum kristnum söfnuðum.

Veraldlegar útfarir

Undanfarin ár hafa veraldlegar útfarir færst í vöxt og eru þær með ýmsu sniði. Flestar veraldlegar útfarir á Íslandi eru leiddar af Siðmennt en einnig er orðið algengara að fulltrúi útfararþjónustunnar stýri útförum. Í veraldlegum athöfnum er minna um kórsöng og orgelleik en algengara að ástvinir taki virkari þátt, t.a.m. með því að flytja texta, ljóð eða tala frá eigin hjarta. Í veraldlegum athöfnum Siðmenntar er iðulega flutt hugvekja eða fjallað um ákveðin gildi sem eru gjarnan tengd lífsviðhorfum manneskjunnar sem verið er að kveðja.

Önnur trúarbrögð

Samhliða fjölgun fólks af erlendum uppruna hefur útförum samkvæmt öðrum trúarbrögðum og siðum fjölgað á Íslandi. Í Fossvogskirkju, kapellunni þar og bænhúsinu eru öll trúarbrögð velkomin og eru þá kristilegir munir fjarlægðir. Eins eru mörg trúfélög með eigið húsnæði til tilbeiðslu og athafna. Þá kemur til greina að velja veislusali eða annað hentugt húsnæði.

Útfarir eftir bálför

Færst hefur í vöxt á Íslandi að útförin fari fram eftir bálför og í stað kistu sé haft duftker og stundum mynd af manneskjunni sem lést, auk skreytinga.

Minningarorð

Yfirleitt taka aðstandendur saman helstu upplýsingar um æviskeið ástvinarins sem eru svo notuð minningarorðum prests eða fulltrúa trú- eða lífsskoðunarfélags í útförinni. Margir kjósa að fela þeim sem stýrir útförinni að skrifa minningarorðin og byggja þau oft á samtali þess aðila við fleiri en einn úr hópi nánustu aðstandenda. Aðrir aðstandendur kjósa að skrifa minningarorðin sjálfir og afhenda þau presti eða fulltrúa trú- eða lífsskoðunarfélags fyrir athöfnina.

Ef aðstandendur stofna minningarsíðu á Minningar.is til að taka við minningargreinum geta þeir sett saman fallegan texta með upplýsingum um æviskeið eða minningarorðum eða jafnvel notast við minningarorðin úr útförinni að hluta eða í heild. 

Stofna minningarsíðu

Hinsta hvíla

Fyrir útför þarf að taka ákvörðun um hvar látinn ástvinur á að hvíla, þ.e. velja grafreit í kirkjugarði eða duftker ef bálför er fyrirhuguð. Sérstaklega þarf að taka tillit til þess ef manneskjan sem er látin hefur óskað sérstaklega eftir bálför.

Myndir

Oftast velja aðstandendur að hafa andlitsmynd framan á dagskrá útfarar eða sálmaskrá. Útfararþjónustur mæla gjarnan með því að sú mynd sem verður fyrir valinu endurspegli ásjónu manneskjunnar eins og flestir þekktu hana. Til dæmis eru oft eldri myndir valdar ef viðkomandi hefur þjáðst af veikindum í seinni tíð.  Nú til dags er það orðið algengara en ekki að fleiri myndir séu prentaðar með, t.d. á baksíðu eða sérstökum myndasíðum í dagskrá eða sálmaskrá.

no image
no image

Ef stofnuð er minningarsíða á Minningar.is til að taka á móti minningargreinum má annað hvort hafa andlitsmynd eða stærri mynd sem aðalmynd. Eins geta aðstandendur síðunnar hlaðið upp fleiri myndum í fjölbreyttum stærðum. Þeir sem skrá sig inn til að skrifa minningargreinar eða kveðjur á minningarsíðu á Minningar.is geta líka sett inn myndir af manneskjunni sem er látin eða annað myndefni sem tengist henni.

Stofna minningarsíðu

Dagskrá eða sálmaskrá

Flestum sem eru við útför finnst gott að geta séð upplýsingar um uppbyggingu athafnarinnar. Fólki finnst líka gjarnan þægilegt að hafa eitthvað í höndunum. Þannig getur það horft á mynd eða myndir af manneskjunni sem er látin og fylgst betur með því sem fram fer, sungið með ef við á o.s.frv.

Margir taka dagskrána eða sálmaskrána með sér heim og halda jafnvel upp á hana til minningar. Útfararþjónustur taka að sér uppsetningu og prentun en sumir aðstandendur kjósa að standa að því sjálfir.

Kistuburður

Þeir sem taka að sér að bera kistuna út í lok athafnar eru samkvæmt venjunni sex til átta nánir ættingjar og vinir. Samkvæmt hefðinni sitja þeir fremst og til hægri, en einnig tíðkast að þeir sitji með sínu fólki, t.d. fremst eða framarlega til vinstri þar sem nánustu ættingjar sitja samkvæmt hefðinni.

Fulltrúi útfararþjónustu kennir þeim sem bera réttu handtökin og leiðir útgönguna í athöfninni sjálfri. Ef um bálför er að ræða er kistunni komið fyrir, t.d. við innganginn og þeir sem vilja geta staldrað við hana, signt yfir, gert eilífðarmerki með fingrinum, lagt blóm eða kvatt á sinn máta. Annars er kistan strax borin út í þar til gerðan bíl og henni ekið í kirkjugarðinn.

no image

Blóm og kransar

Algengt er að kistan sé skreytt með blómum og oft er hún skreytt með fána í anda manneskjunnar sem lést, t.d. íslenska fánanum, öðrum þjóðfána, fána félags eða regnbogafána. Þá er einnig algengt að vinnustaðir, félagasamtök eða ákveðnir hópar fólks kaupi blóm eða kransa fyrir jarðarförina til minningar um manneskjuna sem lést.

Þegar kistan er borin út eftir athöfn er oft gengið með blóm og kransa á undan henni. Því þarf taka ákvörðun fyrirfram um hverjum er falið það hlutverk í athöfninni. Fulltrúi útfararþjónustu skipuleggur og undirbýr blómaburðinn og kistuburðinn með ástvinum.

Jarðarför

Sé um jarðarför að ræða á síðasti hluti útfarar sér stað í kirkjugarðinum eða grafreitnum. Á höfuðborgarsvæðinu eru það yfirleitt þeir sem þekktu manneskjuna sem lést náið sem eru viðstaddir en víða úti á landi tíðkast að allir þeir sem voru viðstaddir athöfnina séu einnig viðstaddir í garðinum. Þegar líkfylgdin er komin í garðinn er kistan borin úr bílnum að gröfinni. Blóm og kransar eru lagðir við hlið hennar.

Algengt er að kistan sé látin síga ofan í gröfina, sá sem sér um athöfnina fari með nokkur orð og aðstandendur gangi svo hver og einn að gröfinni og kveðji með sínum hætti. Sumir kjósa að kistunni sé komið fyrir við gröfina og hún svo látin síga niður þegar aðstandendur hafa yfirgefið garðinn. Þegar kistan er komin í gröfina og hún frágengin fara blóm og kransar ofan á leiðið.

Bálför

Aðstandendur mega samkvæmt lögum ekki vera viðstaddir bálför en eftir að hún fer fram geta þeir fengið öskuna afhenta í þar til gerðu duftkeri sem þeir eru búnir að velja og eru þá ábyrgir fyrir að kerið sé jarðsett eða að öskunni sé dreift.

Duftker má jarðsetja í kirkjugörðum, grafreitum og duftreitum en til að dreifa ösku þarf sérstakt leyfi sýslumanns. Oft er útfararstjóri eða prestur viðstaddur þá stund sem aska er jarðsett eða henni dreift en það er ekki skilyrði.

Tengdar greinar