23. desember 2021
Kostnaður og styrkir
Útfararkostnaður getur verið mjög mismunandi allt eftir því hvaða leið er farin, til dæmis í vali á kistu, tónlistarflutningi eða umgjörð athafnar.
Kostnaður við útför
Upplýsingar um helstu kostnaðarliði má fá hjá útfararstofum, sóknarprestum og fulltrúum trú- eða lífsskoðunarfélaga. Samkvæmt reglugerð ber kirkjugörðum eða Kirkjugarðasjóði að greiða kostnað vegna grafartöku óháð aðild að trúfélagi. Sýslumaður veitir erfingjum bráðabirgðaleyfi til að taka út af bankareikningum dánarbús til að standa straum af kostnaði við jarðarför og erfidrykkju.
Útfararstyrkir
Ef eignir dánarbús nægja ekki fyrir útfararkostnaði getur aðstandandi sótt um útfararstyrk í sveitarfélagi sínu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum en reglur og styrkfjárhæðir eru nokkuð ólíkar milli sveitarfélaga. Einnig veita margir sjúkra- og styrktarsjóðir stéttarfélaga styrki við andlát félagsmanna sinna samkvæmt ákveðnum reglum. Styrkir til greiðslu á útfararkostnaði geta verið skattskyldir og færast þá eftir aðstæðum hjá eftirlifandi maka eða hjá dánarbúinu. Á heimasíðum eða skrifstofum sveitarfélaga og stéttarfélaga er hægt að fá frekari upplýsingar um styrkina sem bjóðast.
Þjónusta við aðstandendur
Á þjónustusíðum okkar má finna upplýsingar um fjölda útfararstofa um allt land sem og aðra þjónustuaðila sem koma að andláti og útförum með einum eða öðrum hætti.