31. mars 2025
Hvað þarf að undirbúa fyrir útför?

Að skipuleggja útför er mikilvægt og oft tilfinningaþrungið ferli. Fyrir flest er það stund til að kveðja ástvini sína með virðingu og þakklæti. Til að gera ferlið eins hnökralaust og auðvelt og hægt er fyrir aðstandendur er gott að hafa nokkur atriði í huga.
Fyrstu skrefin
Fyrsta skrefið eftir andlát er að hafa samband við útfararstofu, sem getur veitt leiðbeiningar og ráðgjöf um næstu skref. Einnig þarf að tilkynna andlátið til kirkju, presta eða annarra sem koma að athöfninni, allt eftir því hvort um hefðbundna útför er að ræða eða annars konar kveðjuathöfn.
Dagsetning og tími
Val á degi og tíma fyrir jarðarför fer oft eftir því hvenær kirkja eða útfararstaður er laus, hvenær prestur eða athafnastjóri er til taks og hvaða tímasetning hentar aðstandendum. Algengt er að jarðafarir fari fram rúmri viku eða tveim eftir andlát, en stundum getur verið þörf á frestun.
Val á kveðjuathöfn
Jarðarför getur verið trúarlegs eða borgaralegs eðlis eftir óskum hins látna einstaklings og aðstandenda hans. Hafi hinn látni ekki skilið eftir sig óskir er þetta mikilvæg ákvörðun fyrir aðstandendur. Kirkjulegar athafnir fara nær alltaf fram í kirkju eða kapellu, á meðan borgaraleg kveðjuathöfn getur farið fram á útfararstofu, í samkomusal eða á öðrum merkingarbærum stöðum.
Andlátstilkynning á Minningar.is
Þegar andlát er tilkynnt á Minningar.is verður samtímis til minningarsíða. Umsjónaraðili getur alltaf breytt henni og bætt hana síðar. Einu upplýsingarnar sem þurfa að vera til staðar fyrir andlátstilkynningu á Minningar.is eru nafn hinnar látnu manneskju, fæðingardagur, dánardagur og texti andlátstilkynningar.
Blóm og kveðjur
Blóm og kransar eru oftar en ekki mjög áberandi hluti af útförum og geta verið valin út frá litum og tegundum sem tengjast hinum látna. Sum velja frekar að óska eftir framlagi til góðgerðarmála, spítala, hjúkrunarheimilis eða annars í stað blóma.
Jarðsetning eða bálför
Ef jarðsetning fer fram að lokinni kveðjuathöfn þarf að skipuleggja hana í samráði við kirkjugarð. Ef valin er bálför er duftker oft jarðsett síðar í sérstökum duftreit eða þá að öskunni er dreift á einhverjum stað sem hafði sérstaka merkingu fyrir hinn látna.
Erfidrykkja
Að lokinni útför er mjög algengt að boðið sé til erfidrykkju, þar sem gestir koma saman, minnast hins látna einstaklings og veita aðstandendum hans hlýju og stuðning. Val á salarkynnum og veitingum er í höndum aðstandenda eða eftir óskum hins látna.
Minningar og kveðjur
Þegar útförin er að baki finna mörg þörf fyrir að halda minningu hins látna á lofti, hvort sem það er með minningargrein í blaði, kveðju á Minningar.is eða með öðrum hætti. Sum velja að halda ársminningu eða þá að þeir nánustu koma saman síðar meir til að minnast ástvinar.
Með réttum undirbúningi og stuðningi geta aðstandendur gert kveðjustundina virðulega og fallega, og þannig minnst hins látna með ást og virðingu.
Stofnun minningarsíðu á Minningar.is
Þegar búið er að stofna minningarsíðu á Minningar.is má með einföldum hætti deila henni á samfélagsmiðlum og tilkynna þannig andlátið í samfélaginu. Á minningarsíðu á Minningar.is koma einnig fram upplýsingar um útför ef fólk kýs að auglýsa hana. Eins má setja hlekk á streymi frá útförinni sé henni streymt á netinu.
Kyrrþey
Ef útförin fer fram í kyrrþey mælum við með því að stofna minningarsíðu á Minningar.is að athöfn lokinni