24. desember 2021

Erfðamál

no image

Í margbreytilegum fjölskyldumynstrum samtímans er gjarnan léttir að ná að leiða erfðamál til lykta á hnökralausan hátt.

Dánarbú

Við andlát verður til dánarbú sem þarf að skipta samkvæmt lögum. Dánarbúið er lögaðili sem tekur tímabundið við flestum fjárhagslegum réttindum og skyldum látinnar manneskju. Sýslumenn sjá um þjónustu og upplýsingagjöf varðandi andlát og dánarbú.

Síða sýslumanna

Hver erfir?

Erfðaréttur verður til ef um skyldleika, ættleiðingu eða hjúskap er að ræða. Réttur til arfs getur einnig verið byggður á erfðaskrá. Eignir dánarbús renna til ríkissjóðs ef engir erfingjar finnast. Samkvæmt lögum ganga að minnsta kosti tveir þriðjungar eigna til skylduerfingja og því má aðeins ráðstafa þriðjungi eigna með erfðaskrá. Skylduerfingjar eru maki og niðjar. Heimilt er að ráðstafa öllum eignum með erfðaskrá ef ekki eru skylduerfingjar til staðar.

Í skilningi erfðalaga telst sambýlingur ekki maki nema um sé að ræða hjúskap. Gagnkvæmur lögbundinn erfðaréttur myndast því ekki milli sambúðarfólks. Það sama gildir um stjúpbörn og fósturbörn en kjörbörn hafa erfðarétt á sama hátt og niðjar.

Ráðstöfun með erfðaskrá

Erfðaskrá er skriflegur löggerningur sem einstaklingur gerir til að ráðstafa eignum sínum eftir andlátið. Sjálfsagt er og jafnvel nauðsynlegt að leita eftir aðstoð sérfróðra þegar gengið er frá erfðaskrá og skiptingu dánarbúa. Strangar reglur gilda um form erfðaskráa og um hvernig á að standa að vottun þeirra. Erfðaskrá getur verið ógild ef ekki er farið eftir þeim reglum.

Skipting dánarbús

Sýslumaður veitir bráðabirgðaleyfi til að taka út af bankareikningum til að greiða fyrir jarðarför og erfidrykkju og til að kanna eigna- og skuldastöðu hinnar látnu manneskju. Erfingjar hafa fjóra mánuði frá andláti til að taka afstöðu til skiptingar dánarbús. Fjórar leiðir koma til greina: Að dánarbú sé lýst eignalaust, maki sitji í óskiptu búi, einkaskipti og opinber skipti.

no image
no image

Eignalaust dánarbú

Ef dánarbúið er eignalaust eða ef eignir þess duga aðeins fyrir útfararkostnaði hafa erfingjar rétt á að hafna arfinum og afsala sér ábyrgð á dánarbúinu. Ef erfingjar ákveða hins vegar að þiggja arfinn taka þeir um leið á sig ábyrgð á skuldum sem mögulega eru til staðar í dánarbúinu og því er mikilvægt að kanna skuldastöðu vel.

Maki situr í óskiptu búi

Eftirlifandi maki getur setið í óskiptu búi og þarf ekki að fá samþykki sameiginlegra afkomenda til þess. Ef látna manneskjan átti niðja sem eru ekki börn eftirlifandi maka getur þurft að leita eftir samþykki þeirra til setu í óskiptu búi. Maki sem situr í óskiptu búi hefur forræði yfir búinu og ber ábyrgð á skuldum látna ástvinarins. Eftirlifandi sambýlingur hefur ekki rétt til að sitja í óskiptu búi.

Einkaskipti

Algengast er að dánarbúum sé skipt með einkaskiptum. Þau fela í sér að erfingjar sjá sjálfir um skipti á dánarbúinu en taka þar með á sig persónulega ábyrgð á skuldum búsins. Erfingjar mega þó ekki gera neinar ráðstafanir um hagsmuni dánarbúsins fyrr en þeir hafa fengið leyfi sýslumanns til einkaskipta. Lok einkaskipta miðast við skil erfðafjárskýrslu til sýslumanns en það þarf að gera innan árs frá andláti.

no image

Opinber skipti

Allir erfingjar eiga rétt á því að krefjast opinberra skipta á dánarbúi hjá sýslumanni, og er nóg að einn þeirra óski eftir slíkum skiptum. Þá er farið með málið svipað og við gjaldþrotaskipti. Sýslumaður skipar þá lögmann sem skiptastjóra til að halda utan um skiptin. Vinna skiptastjórans getur verið kostnaðarsöm og hún er almennt greidd með fjármunum dánarbúsins.

Ástæður til að óska eftir opinberum skiptum geta verið að eignir búsins dugi ekki fyrir skuldum, að erfingjar treysti sér ekki til að taka ábyrgð á skuldunum eða samkomulag náist ekki milli erfingja um úthlutun eigna. Opinber skipti eru einnig gerð ef erfingjar hafa ekki lokið einkaskiptum innan árs frá andláti.

Erfðafjárskattur

Lögum samkvæmt ber að greiða 10% erfðafjárskatt af öllum verðmætum sem úthlutað er til erfingja við skipti á dánarbúi. Miðað er við dánardag við mat á verðmæti eigna. Þó er ekki greiddur erfðafjárskattur af fyrstu kr. 5.000.000 í skattstofni dánarbús.

Undanþága frá greiðslu erfðafjárskatts gildir um eftirlifandi maka og einnig um sambýling sem tekur arf samkvæmt erfðaskrá. Aðrir erfingjar greiða hins vegar erfðafjárskatt af því sem þeir fá í arf og verða þeir að fylla út erfðafjárskýrslu. Eftir að erfðafjárskattur hefur verið greiddur geta erfingjar fengið áritun sýslumanns á skjöl sem þarf til að skrá eignir dánarbús á þeirra nöfn.

Framtalsskylda dánarbúa

Framtalsskylda hvílir á dánarbúum þar til skiptum er lokið. Skylt er að skila skattframtali fyrir hvert ár fram að skiptalokum, sem venjulega eru innan árs frá andláti en skiptatímabilið getur náð yfir tvö skattár.

Síða Skattsins

Athugið: Upplýsingar þessar eru teknar saman í leiðbeiningarskyni en er ekki ætlað að vera tæmandi. Aðstandendum er bent á að leita aðstoðar lögmanns eða annars sérfræðings ef upp koma vafamál tengd erfðamálum eða búskiptum.

Tengdar greinar