15. desember 2021

Að tilkynna andlát

no image

Að tilkynna öðrum eða frétta sjálfur af andláti getur verið viðkvæmt, sérstaklega ef um náinn vin eða ættingja er að ræða.

Nánustu aðstandendur

Ef nánustu aðstandendur eru ekki viðstaddir andlát er haft samband við þá eins fljótt og mögulegt er. Ef um er að ræða banaslys er algengt að prestur eða lögreglumaður tilkynni aðstandendum andlátið.

Næst er haft samband við vini og ættingja í innsta hring manneskjunnar sem er látin. Stundum treysta nánustu aðstandendur sér ekki til þess og fela það vini eða fagaðila. Þegar þarf að tilkynna barni andlát er mikilvægt að það sé gert á rólegan og yfirvegaðan hátt af einhverjum sem barnið treystir.

Dánarvottorð

Nánasti aðstandandi eða fulltrúi aðstandenda fær dánarvottorð frá lækni eða heilbrigðisstofnun og afhendir það sýslumanni. Sýslumaður tilkynnir andlátið til Þjóðskrár Íslands.

Opinber vettvangur

Æskilegt er að aðstandendur tilkynni öðrum skyldmennum og vinum manneskjunnar sem er látin um andlátið áður en fregnir af því birtast opinberlega. Færslur á samfélagsmiðlum sem skýra frá andláti lúta sama lögmáli. Því er mikilvægt að stíga gætilega til jarðar í þeim efnum.

Andlátstilkynning á Minningar.is

Þegar andlát er tilkynnt á Minningar.is verður samtímis til minningarsíða. Umsjónaraðili getur alltaf breytt henni og bætt hana síðar. Einu upplýsingarnar sem þurfa að vera til staðar fyrir andlátstilkynningu á Minningar.is eru nafn hinnar látnu manneskju, fæðingardagur, dánardagur og texti andlátstilkynningar. 

Tilkynna andlát

Nýleg andlát

Þegar andlát hefur verið tilkynnt á Minningar.is er andlátstilkynningin birt undir Nýleg andlát á vefnum í tvær vikur frá dánardegi. Hægt er að deila andlátstilkynningunni með einföldum hætti á samfélagsmiðlum og birtist hún þá sem fallegt spjald sem sýnir tilkynningartextann, mynd af hinni látnu manneskju, fæðingardag og dánardag. 

Andlát af slysförum

Fréttamönnum og fulltrúum fjölmiðla ber skylda til að hafa samráð við presta eða lögreglu um það hvenær tímabært sé að birta nafn manneskju sem hefur látist af slysförum og er meginreglan sú að þá sé búið að ná í flesta eða alla nánustu aðstandendur.

Stofnun minningarsíðu á Minningar.is

Þegar búið er að stofna minningarsíðu á Minningar.is má með einföldum hætti deila henni á samfélagsmiðlum og tilkynna þannig andlátið í samfélaginu. Á minningarsíðu á Minningar.is koma einnig fram upplýsingar um útför ef fólk kýs að auglýsa hana. Eins má setja hlekk á streymi frá útförinni sé henni streymt á netinu.  

Stofna minningarsíðu

Kyrrþey

Ef útförin fer fram í kyrrþey mælum við með því að stofna minningarsíðu á Minningar.is að athöfn lokinni.

Tengdar greinar